miðvikudagur, 20. febrúar 2008

Þerapía


Það er alveg ótrúlegt hvað gönguferð út á sanda getur gert fyrir sálina. Ég ákvað eftir vinnu í gær að skreppa AÐEINS út á sanda (eins og lesendur þessarar síðu sjá er ég svolítið hrifin af þeim).
Þegar hausinn á manni er í messi og alveg við það að springa og maður er búinn að fara þúsund hringi með allar sínar vangaveltur og pælingar þá er sandaferð sennilega EINA lausnin í stöðunni.
Veðrið í gær var reyndar algjörlega magnað og skemmdi svo sannarlega ekki fyrir í svona þerapíu göngu.
Það að vera gjörsamlega aleinn í heiminum og arka eftir fjörunni og sjá ekkert nema sjó og sand í aðra áttina í hina er sólin að daðra við fjallstindana og undirbúa alveg magnað sólsetur eftir vel unnið dagsverk og það eina sem maður heyrir er öldugjálfrið í fjörunni er bara geggjað. Það sem er sennilega best við þessar gönguferðir er að maður getur fengið svo fullkomna útrás og það er enginn sem heyrir í manni, sama hvort maður talar allar sínar hugsanir út í loftið, öskrar og gargar, grætur, hlær, syngur eða bara stein þegir og arkar áfram þá segja sandarnir ekki neitt, taka endalaust við. Það er líka svo gott að þessi þerapía er gjaldfrjáls, alltaf opin og engin tímamörk, enda nýtti ég mér það í gær, arkaði um í tvo og hálfan tíma og reyndi að sortera hausinn á mér. Ég segi nú ekki að mér hafi tekist að sortera allt á rétta staði og finna lausn á öllum mínum vangaveltum og pælingum, en mér tókst nú samt að taka nokkrar ákvarðanir og koma sumum tilfinningum á rétt ról (held ég).
En ég kom allavega heim endurnærð og tilbúnari að smæla framan í heiminn.

Næst er það bara að undirbúa ferð hinna útvöldu í bústaðinn um næstu helgi, þetta verður mögnuð helgi, enda magnaður hópur þar á ferð og ef marka má síðustu bústaðar ferð verður vel tekið á hlátur, kjafta og drykkju kvóta ársins. Hlakka óskaplega til, þið sem lesið þetta og eruð ekki í hópi hinna útvöldu, sorry, þið fáið sennilega ekki að vita mikið um þessa ferð en svona er lífið bara.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Múhaha!!! Djöfull erum við heppnar að vera þessar útvöldu. Fáir sem komast í hópinn. Ætli þú hafir ekki orðið lasin við að reyna of mikið á hausinn í þessari gönguferð þinni! Frekar að hafa "sálfræði"samtalaþjónustu milli okkar eins og við tókum á um daginn eftir vinnu. Sjáumst! kv Dröfn

Helga Björk sagði...

Já, gæti verið. Hreyfing er ofmetin hvort eð er.
Vissulega verður áframhald á "sálfræðiþjónustunni" eftir vinnu. Fá útrás eftir erfiðann vinnudag, nauðsynlegt.